Saga skólans

 

Leikskólinn  Araklettur var byggður árið 1984 og tók til starfa 23. september það ár. Hann varð því 30 ára s.l. haust. Áður en leikskólinn var byggður var starfræktur gæsluvöllur á sama stað og leikskólinn stendur nú frá árinu 1965.  Árið 1979 var rekinn leikskóli í anddyri félagsheimilis Patreksfjarðar. Nafnið Araklettur hlaut leikskólinn á 10 ára afmæli sínu þegar efnt var til samkeppni um nafn meðal starfsfólks. Nafnið er dregið af  örnefni í grennd skólans. Á fyrri hluta síðustu aldar var sjómaður er lagði upp við klettadrang sem skagaði fram í sjó fyrir um það bil miðju þorpinu. Síðan var kletturinn kallaður Araklettur. Frá þessum tíma  hafa orðið miklar breytingar, hluti klettsins sprengdur og vegur kominn fyrir framan hann ásamt mikilli uppfyllingu. Leikskólinn stendur nú á þessari fyllingu í nálægð við klettinn. Á hinn veginn við leikskólann er svæði sem nefnist “Krókur”. Deildirnar þrjár á Arakletti, yngsta deildin Klettur, miðdeildin Krókur og elsta deildin Kot.

 

Námskrá leikskólans byggir á aðalnámskrá leikskóla frá 2011, lögum og reglugerðum fyrir leikskóla og Skólastefnu Vesturbyggðar

(Uppfært í nóvember 2017) 

Ágrip af sögu leikskólastarfs á Patreksfirði frá 1965 – 2016

Eftir Helgu Bjarnadóttur

Flutt á foreldrafundi í Arakletti 18. október 2016

 

 

Frá 1965 rak Patrekshreppur leikvöll hér í Króknum  á sama stað og leikvöllurinn er nú.  Gæsla var á vellinum yfir sumartímann og fram eftir hausti eftir því sem veður leyfði og vetur gekk í garð.  Opnunartími vallarins var frá kl. 07:45 til kl. 17:15.

Þar sem enginn leikskóli var til staðar nýttu  margir foreldrar sér þessa þjónustu, til þess að geta stundað vinnu heima og utan heimilis. Því voru alltaf nokkur börn  sem voru á leikvellinum allan daginn, nánast hvernig sem viðraði. Ein gæslukona starfaði á vellinum fyrsta sumarið seinna urðu þær 2 til 3 .

Aldurstakmark var eftir hádegi 2ja ára til 6ára. En fyrir hádegi var ekkert aldurstakmark og komu barnfóstrur þá gjarnan með lítil börn.

Völlurinn var mjög vinsæll  og oft barnahópurinn stór.  Það voru sem sagt engin takmörk um barnafjöldann og því mikið álag á gæslukonurnar.

Lítill skúr var með hreinlætisaðstöðu en annað rými það lítið að það rúmaði aðeins örfá börn ef taka átti þau inn, enda ekki miðað við það.

Börnin höfðu nesti með sér og sátu úti við að drekka.  Þau aðlöguðst fljótt og kipptu sér ekki upp við það þó ekki væri alltaf sólskin og blíða.

Síðan var það 1979 að Patrekshreppur hóf rekstur leikskóla í félagsheimilinu.  (í andyrinu) ( Á þessum tíma var hafist handa við byggingu leikskólans) En þá hafði áður fyrir tilstuðlan fiskvinnslufyrirtækja og hreppsins verið rekið barnaheimili í íbúðarhúsi við Urðargötu um stuttan tíma.

Í andyri félagsheimilisins var nægjanlegt rými, en ekki var hægt að stúka það niður því þarna fór fram önnur starfsemi flest kvöld.

Leikskólahaldið í félagsheimilinu miðaðist því við það að húsgögn og allt er tilheyrði starfinu var geymt í  geymsluherbergi, síðan tekið fram á hverjum morgni og skilað aftur í geymslu að loknum degi.

 

Þessa vinnu væri engum bjóðandi í dag.

 

Við þessar aðstæður þurfti gott skipulag. Starfið innan dyra miðaðist við að skipta börnunum í hópa og starfaði hver með sinn hóp við föndur lestur leiki og ýmislegt.  En þar sem aðstaðan var einn geimur, bauð hún líka upp á marga góða kosti,  samverustundir þar sem sungið var og dansað og allur hópurinn fór í leiki og af og til voru haldnar leiksýningar.  

 

Útiveran var mikið þannig að börnin léku sér frjáls úti í náttúrinni.  Gott eftirlit þurfti og var stöðugt verið að telja hópinn.

Það var farið í gönguferðir, í hlíðina og fram í skógrækt niður í fjöru.

 

Aðsóknin að leikskólanum var mikil á þessum árum og barna fjöldinn milli 30 og 4o börn fyrir og eftir hádegi en aðallega var um hálfdagspláss að ræða.  Starfskonur voru oftast 4 og skiptu þær einnig með sér þrifum.

 

Mikil vinna og álag fylgdi leikskólastarfinu í Félagsheimilinu.  En það starfsfólk sem þar vann á þessum tíma minnist hans með söknuði.  Þarna skapaðist góður andi sem varla myndast við aðrar aðstæður. Eða eins og margar segja sem þarna unnu,  draumaaðstæður við rekstur leikskóla.

 

En 23. september 1984 rann upp sá dagur að leikskólinn komst í eigið húsnæði.  Nú erðu miklar breytingar, við að fara í húsnæði sem henta átti þörfum barnanna og geta notað leikvöllinn með öllum leiktækjunum.

 

Leikskólinn skiptist í tvær deildir sem kallaðar voru Bangsadeild og Kisudeild. Á 10 ára afmæli leikskólans fékk hann nafnið Araklettur. Nafnið tengist örnefni, klettadrangi sem kallaðist Araklettur, sem skagaði fram í sjó austast á leikskólalóðinni.

 

Sagt er að sjómaður sem nefndist Ari hafi lagt báti sínum að þessum kletti og gert þaðan út.  Síðar var sprengt úr klettinum fyrir vegi og hann ekki samur og hann var.