Stefna og hugmyndafræði

Stefna leikskólans Arakletts er Lífsmenntarstefna (Living Values Education) og starfsemi Araletts þar sem framkvæmd hennar er lýst í námskrá Arakletts, læisisáætlun og kennsluáætlunum.  

 

Lífsmennt varð til í kjölfar alþjóðlegs verkefnis sem Brahma Kumaris stóð að árið 1995 á 50 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna og fólst í að beina athygli að tólf alþjóðlegum gildum undir  yfirskriftinni „Deilum gildum okkar til að skapa betri heim“. Bókin Lífsmennt inniheldur námsáætlun og viðfangsefni í lífsgildum er skrifuð m.a. fyrir kennara  er þróuð og skrifuð af  Diane Tillmann og Diana Hsu, þýðing Erla Björk Steinsdóttir.

Tilgangur og markmið lífsmenntar

Tilgangurinn  er að veita leiðbeiningar og verkfæri til  þróunar manneskjunnar í heild sinni (the whole person) og viðurkenna að hver einstaklingur er samsettur af líkamlegum, vitsmunalegum, tilfinningalegum og andlegum þáttum.

Markmið okkar eru:
  • Að hjálpa einstaklingum að hugleiða og vinna með mismunandi gildi og að gera sér grein fyrir jákvæðum afleiðingum þess að tjá þau í tengslum við sjálfa sig, aðra, samfélagið og heiminn í heild.

  • Að dýpka skilning, ástæðu/tilgang og ábyrgð með tilliti til persónulegra og félagslegra ákvarðana.

  • Að hvetja einstaklinginn til að velja eigin persónulegu, félagslegu, siðferðilegu og andlegu gildi og vera meðvitaður um hagnýtar aðferðir við þróun og dýpkun þeirra.

  • Að hvetja kennara og starfsfólk til að líta á menntun sem leið til að efla með nemendum lífsspeki og þannig auðvelda heildarvöxt þeirra, þróun og val svo að þeir geti tekið þátt í samfélaginu af virðingu, sjálfstrausti og finni lífi sínu tilgang. http://www.livingvalues.net/purpose.html

Lífsmennt styðst við kenningar Howard Gardner en hann flokkar greind manna í átta flokka: Málgreind, rök- og stærð-fræðigreind, rýmisgreind, tónlistargreind, líkams- og hreyfigreind, sjálfsþekkingargreind, samskiptagreind og umhverfisgreind. Hann telur að börn læri á ólíkan hátt allt eftir því hvaða greind er ríkjandi og því mikilvægt að hafa námsumhverfi og kennslu eins fjölbreytta og kostur er.

 

Námsefnið krefst þess að starfsmenn tileinki sér gildin, því börn læra best það sem fyrir þeim er haft og eru því móttækilegust þegar þau sjá aðra nota gildin. Kennarar um allan heim eru hvattir til að byggja á ríkri menningararfleið sinni þegar þeir flétta námsefnið og gildin inn í starfið og það hefur leikskólinn haft að leiðarljósi.

 

Leikskólinn leggur mikinn metnað í að skapa börnunum  fjölbreytt og öruggt leik- og námsumhverfi í virkri samvinnu við forelda. Lögð er áhersla á að nálgast hvert barn þar sem það er statt og styrkja það og efla svo það verði virkur þátttakandi í samfélagi skólans. Börnunum er sýnd virðing og umhyggja ásamt því að leiða þau til menntunar og þroska. Að barnið fái að vera það sjálft og að uppgötva, tjá sig og skapa á sínum forsendum. Börn eru forvitin að eðlisfari, þau eru fróðleiksfús og búa yfir mörgum dýrmætum eiginleikum. Þau eru skapandi, umhyggjusöm og geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Í gildisríku umhverfi þrífast börn og blómstra.

Lífsmenntastundir / samverustundir

Lífsmenntastundir gegna mikilvægu hlutverki fyrir félags- og málþroska barnanna.

Ýmis fræðsla tengd menningu, listum, Barnasáttmálanum og gildunum fer þar fram.

Lesnar eru sögur, sungið, farið í leiki, hugarflugsæfingar, jógaleiki og rætt saman.

Fjallað er um heiti daganna og mánaðanna, einnig er veðráttan og tíðarfarið rætt í tengslum við árstíðirnar. Með hverju gildi fylgja íhugunaratriði sem eru rædd og skapaðar umræður um í barnahópnum og unnið er með hugmyndir þeirra áfram.

Íhugunaratriði um gildin

• Friður er að hugsa jákvætt um sjálfa/n sig og aðra.

• Virðing er að vera ánægð/ur með hver ég er.

• Kærleikur er umhyggjusemi.

• Ábyrgð er að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda.

• Hamingja er að gleðjast með vinum sínum.

• Samvinna er þegar allir hjálpast að við verkin.

• Heiðarleiki er að segja sannleikann.

• Auðmýkt á samleið með sjálfsvirðingu.

• Við erum öll einstök og höfum eitthvað dýrmætt að gefa og deila með öðrum.

• Einfaldleiki er að læra af jörðinni.

• Eining er skemmtileg og lætur okkur líða eins og fjölskyldu.

 

Hugrekki er margvísleg og hjálpar okkur til dæmis að þora að segja satt og að vera heiðarlegur, að vera vinur og að geta sagt nei.

(Uppfært í nóvember 2017)